The Statement of Spokesperson of the Chinese Embassy in Iceland is Featured in Full on Morgunblaðið
2020/03/31

On March 27, Morgunblaðið published an editorial with distorted comments on China's efforts to fight COVID-19. The spokesperson of the Chinese Embassy in Iceland sent letter to the newspaper to refute its wrong remarks.

On March 31, the remarks were featured in full as following:

Yfirlýsing frá kínverska sendiráðinu á Íslandi

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá kínverska sendiráðinu á Íslandi:

„Hinn 27. mars birtist í Morgunblaðinu ritstjórnargrein sem kallaðist Hið kínverska Tsjernóbyl? þar sem kom fram ómakleg gagnrýni á Kína og farið var með fleipur um Kínverska kommúnistaflokkinn (CPC). Kína er ósátt við þessi ummæli og andæfir þeim kröftuglega. Í greininni er CPC sakað um hæg og slæleg viðbrögð við COVID-19-faraldrinum og staðhæft er að faraldurinn vegna COVID-19 hefði sennilega ekki orðið að alheimsfaraldri ef kínversk stjórnvöld hefðu sagt satt og rétt frá.

Þessar fullyrðingar minna óþægilega á ómakleg ummæli frá vissum stjórnmálamönnum í Bandaríkjunum sem hafa verið að úthrópa Kína undanfarið og eðlilega fara menn að velta fyrir sér af hverju þessi ritstjórnargrein var birt.

Staðreyndir skipta meira máli en orð. Staðreyndin er sú að fyrsta tilfellið um lungnabólgu af óþekktum orsökum var skráð í Wuhan-borg hinn 3. desember á síðasta ári. Það tekur tíma að staðfesta það vísindalega og nákvæmlega að um nýjan vírus sé að ræða. Héraðsstjórnin í Wuhan tilkynnti það síðan til heilbrigðisnefndar Kína eftir hefðbundnum boðleiðum í seinni hluta desember. Hinn 31. desember sendi heilbrigðisnefnd Kína hóp af sérfræðingum til Wuhan til að meta stöðuna og tilkynning um nýja veirusýkingu var í framhaldinu send til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og annarra alþjóðlegra viðbragðsaðila hinn 3. janúar 2020 og hefur verið tilkynnt um framgang mála óslitið síðan.

Hinn 7. janúar tókst kínverskum vísindamönnum að greina genamengi nýja vírussins og var þeim niðurstöðum deilt umsvifalaust með vísindasamfélagi heimsins.

Hinn 23. janúar ákváðu kínversk yfirvöld að ráði sérfræðinga að loka Wuhan-borg og herða ferðareglur í öðrum héruðum Kína. Gripið var til allra hugsanlegra viðbragða til að berjast við og hemja faraldurinn og stóðu þessar aðgerðir í rúma tvo mánuði. Hinn 25. janúar birti Trump, forseti Bandaríkjanna, tíst þar sem hann lýsti yfir að „Kína hefði unnið ötullega að því að hemja vírusinn og að Bandaríkin þökkuðu Kína fyrir viðbrögð sín og gagnsæi". Dr. Tedros Adhanom Ghebreysus, framkvæmdastjóri WHO, sagði ennfremur að „hinar skjótu og umfangsmiklu aðgerðir sem Kína hefði gripið til væru án fordæma á heimsvísu".

Ritstjórnargreinin heldur því fram að Kínverski kommúnistaflokkurinn hafi verið að draga fram og dreifa fölskum kenningum um hvernig faraldurinn hafi hafist og gripið til þess að senda erlenda blaðamenn úr landi til að fela ástandið í eigin landi. Þessar ásakanir ganga þvert á staðreyndir og eru eingöngu til þess fallnar að kasta ryki í augu lesenda. Fyrir það fyrsta, eins og Kína hefur margoft bent á, þá er sú vinna sem felst í að rekja uppruna vírussins gríðarlega flókin, þar sem affarsælast er að treysta á sérfræðiþekkingu vísindasamfélagsins.

Sem svar við linnulausum ásökunum frá Bandaríkjunum birti Kína endurtíst af yfirheyrslum þingnefndar Bandaríkjaþings, yfir Robert Redfield, framkvæmdastjóra bandarísku smitsjúkdómastofnunarinnar (CDC), þar sem hann segir að sumir sjúklingar sem sagðir voru hafa látist vegna hinnar árlegu inflúensu, hafi í raun látist vegna kórónavírussins.

Í öðru lagi er það staðreynd að kínverska ríkisstjórnin bað nokkra bandaríska blaðamenn að skila blaðamannaskírteininu. Það voru viðbrögð við þeirri ómaklegu hindrun sem kínversk fjölmiðlafyrirtæki mættu í Bandaríkjunum. Það hefur ekkert með það að gera að hylma yfir eithvað vegna COVID-19 í Kína.

Ritstjórnargreinin ber einnig viðbrögð Kínverska kommúnistaflokksins við faraldrinum saman við viðbrögð Sovétríkjanna sálugu í sambandi við kjarnorkuslysið í Tsjernóbyl og kemur með óábyrg ummæli um kínverska stjórnmálakerfið sem viðra úrelt kaldastríðsviðhorf og hugmyndafræðilega fordóma. Kína er ekki Sovétríkin sálugu, Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki Sovéski kommúnistaflokkurinn. Síðan Kínverski kommúnistaflokkurinn var stofnaður 1921 hefur flokkurinn leitt kínverska alþýðu til áður óþekkts sjálfstæðis og frelsis, auk þess að stuðla að sterkum efnahag og síauknum styrk þjóðarinnar og nýtur Kínverski kommúnistaflokkurinn óskoraðs stuðnings alls 1,4 milljarða landsmanna.

Faraldurinn vegna COVID-19 er mesta ógn við heilsu almennings síðan Alþýðulýðveldið Kína var stofnað og hefur reynst vera gríðarlega erfitt að hemja og ráða við faraldurinn. Undir styrkri stjórn Kínverska kommúnistaflokksins hefur ríkisstjórn Kína gripið til umfangsmestu, ströngustu og áhrifaríkustu aðgerða sem völ var á til að berjast við faraldurinn og hefur sett líf og heilsu almennings í fyrsta sæti . Hafa þessar aðgerðir ýtt undir þjóðarstolt allrar þjóðarinnar.

Nú um stundir virðist það vera sem þróun mála í Kína sé sífellt að verða jákvæðari. Daglegt líf er skjótt að færast í eðlilegt horf. Aðgerðir Kína í baráttunni gegn COVID-19 hafa verið gríðarlega mikilvægar sem framlag til heimsins um árangursríkar aðgerðir við að hemja faraldurinn og hafa hlotið lof alþjóðasamfélagsins. Kína hefur veitt öðrum ríkjum heimsins dýrmætt forskot í baráttunni við faraldurinn sem hefur kostað Kína blóð svita og tár. Við ætlumst ekki til þakklætis frá alþjóðasamfélaginu en förum einungis fram á að njóta sannmælis.

Vírusar virða engin landamæri og eru þeir sameiginlegur óvinur alls mannkyns. Á þessum viðsjárverðu tímum ættum við að hlusta á dr. Tedros Adhanom Ghebreyesys sem sagði að „Núna væri tími fyrir staðreyndir, en ekki ótta. Núna væri tími vísinda en ekki sögusagna, núna væri tími sameiningar en ekki sundrungar." Við ættum ekki að eyða tíma í ásakanir, hvorki í fjölmiðlum né í stjórnmálum, heldur ættum við að einbeita okkur að hinni sameiginlegu baráttu við COVID-19 faraldurinn.

Við vonum innilega að Morgunblaðinu auðnist að verða víðsýnna, virða staðreyndir og láta af ómaklegum árásum á Kína."